Magnús Scheving hlær að neikvæðum dómum 27 september 2014, kl. 09:10 | Nútíminn Magnús spjallaði um neikvæðan dóm sem Latibær fékk í Fréttablaðinu. Magnús Scheving, skapari Latabæjar og fyrrverandi Íþróttaálfur, var gestur Loga Bergmann í þættinum Logi á Stöð 2 á föstudagskvöld. Magnús og Logi ræddu meðal annars Latabæjarsýningu Þjóðleikhússins. „Ég ákvað að loka 20 ára afmæli Latabæjar með frábærri sýningu,“ sagði Magnús. „Þetta er frábær sýning. Ég og Rúnar [Freyr Gíslason] leikstýrum þessu — Rúnar stjórnar þessu frábærlega. Þetta er meiriháttar sýning, hún er ótrúlega flott. Þannig að ef þið eigið börn, eða jafnvel ekki börn. Viljið bara skemmta ykkur rosa vel, þá er þetta frábær sýning.“ Logi og Magnús ræddu dóma sem sýningin hefur fengið og virtist Magnús vísa í tveggja stjörnu dóm Fréttablaðsins: -- "Við fengum frábæra dóma sumstaðar, en einn dómurinn var mjög góður. Hann sagði sko: Þetta eru svo mikil læti, hávaði, hopp og hí og svona. Þetta var eins og þegar fullorðið fólk talar við börn: „Krakkar, ekki vera með þessi læti. Hættið að hoppa og skemmta ykkur.“ Leiðinlegt, gamalt fólk. Þannig að þetta voru dómarnir, ég hló bara að þessu. Krakkarnir skemmta sér frábærlega." -- Magnús útskýrði í kjölfarið af hverju Latibær var meira verðlaunaður erlendis en hér heima: „Við unnum gríðarlega mikið af verðlaunum; Emmy-verðlaun, BAFTA-verðlaun og allt það. En við myndum aldrei vinna verðlaun hérna vegna þess að þetta er svona íþróttaprógramm, um hollustu og heilbrigði. Þeir sem hafa áhuga á bókum, þeir hafa yfirleitt ekki hreyft sig,“ sagði hann í léttum dúr og hélt áfram: „Og íþróttafólk er of heimskt til þess að skrifa, þannig að þetta fer ekkert alltaf saman.“